154. löggjafarþing — 75. fundur,  20. feb. 2024.

mat á endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna.

577. mál
[15:00]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Hér erum við hreinlega að tala um hvernig við best getum tekið utan um framtíð íslensks samfélags, hvernig best við getum virkjað mannauðinn okkar og eflt unga fólkið okkar til dáða vegna þess að þau koma til með að erja jörðina og þurfa að sjá um hlutina eftir að við erum gengin. Þess vegna er í rauninni rosalega sárt að ganga alltaf nánast að því vísu að það er eiginlega alveg sama hvað viljinn er góður og hvað er að gert, það örlar alltaf á þessari misskiptingu vegna efnahags þar sem einstaklingum er gert ómögulegt, algerlega ómögulegt, ef þeir hafa ekki bakhjarl, að afla sér aukinnar menntunar. Það liggur algjörlega á borðinu að sá sem býr úti á landi hefur ekkert bakland, fær ekki úthlutað stúdentaíbúð hér í Reykjavík og hefur í rauninni ekki í neitt að hverfa hér og langar að fara í Háskóla Íslands eða Háskólann í Reykjavík eða hvar annars staðar sem er, gæti aldrei framfleytt sér á þessu námsláni. Það er alger ómöguleiki. Það er ómöguleiki að hann gæti framfleytt sér á námsláninu nema fara út að vinna. Og hvað gerum við þá? Við erum með frítekjumark. Hann fær ekki að vinna eins og hann vill, enda er það staðreynd að með því að þröngva einstaklingnum hreinlega af illri nauðsyn í sjálfsbjargarviðleitni sinni til þess að fara út að vinna, á sama tíma og hann vildi gjarnan eyða öllum sínum tíma í að einbeita sér að náminu sínu, þá erum við í rauninni að skerða líkur hans á því að standa sig vel í námi og við erum líka að lengja námstímann. Það liggur líka algjörlega á borðinu. Það er nánast algerlega vonlaust fyrir nokkurn að ætla að skila 100% námsárangri til að geta gengið inn í þennan 30% styrk sem er verið að boða. Þú þarft að skila ákveðnum einingum til að geta átt kost á því að fá þennan 30% styrk. Ef ekki þá færðu bara ekki styrkinn. En þú mátt heldur ekki vinna nema eitthvað X mikið, þú mátt alls ekki vinna eins og þú vilt.

Við í Flokki fólksins höfum ítrekað talað um það að við eigum að gefa fólkinu okkar frelsi. Við eigum að gefa þeim frelsi hvar í rauninni sem þau standa í þjóðfélagsstiganum til sjálfsbjargar. Við eigum að hjálpa þeim til sjálfsbjargar. Við eigum að hjálpa þeim til menntunar. Við eigum að fjárfesta í mannauðnum. Við eigum að fjárfesta í unga fólkinu. Við eigum ekki að leggja stein í götu þeirra og gera þeim erfitt fyrir um það hvernig þau eigi mögulega að geta aflað sér menntunar. Það sýnir sig í þeirri skýrslu sem hér er um rætt þegar 63% nemenda sem eru í framhaldsnámi eru ekki að taka námslán. Hvers vegna eru þau ekki að taka námslán? Það er vegna þess að þau þurfa þess ekki. Þau hafa bakhjarl, þau hafa peninga. Þau fá mat á diskinn, þau hafa þak yfir höfuðið. Það er einhvern veginn alltaf þannig að þeir sem standa verst, þeir sem hafa það í rauninni bágast, eru alltaf settir í þessa aðstöðu. Þú verður að taka lán, þú verður að borga okurvexti, þú verður að gera þetta, þú verður að gera hitt. Framhaldsnám er ekki fyrir þig, elsku vinur minn eða elsku vina mín, ef þú hefur ekki efni á því og hefur ekki fjárhagslegt bolmagn eða bakland til þess. Við nefnilega skerðum þig, við ákveðnar tekjur þá skerðum við námslánið, sem við náttúrlega viðurkennum að er á okurvöxtum og allt of lágt hvort sem er og enginn getur lifað af því. Ellegar það að þegar þú ert farinn að vinna með náminu þá náttúrlega geturðu heldur ekki tekið þær einingar sem við setjum kröfu um að þú þurfir að geta staðist til þess að geta fengið 30% styrkinn sem við ætlum líka að veita sumum.

Mér finnst þegar við erum að taka heildstætt utan um það sem við erum að tala um, mannauðinn okkar, framtíðina okkar, unga fólkið okkar, þá þurfum við að vera með heildstæða og skýra sýn á það. Við þurfum að átta okkur á því að hverri einustu krónu sem er varið í menntakerfið okkar er vel varið. Hún er gulls ígildi. Hún er framtíð þjóðar. Forgangsröðun fjármuna, eins og ég hef ítrekað talað um, er alls ekki í öllu falli byggð á því að hugsa um velferð og framtíð þjóðar. Það liggur á borðinu.

Við höfum talað líka um þessi lög sem tóku gildi um að afnema ábyrgð, þar sem afnám ábyrgðarmanna gekk í gegn. Hugsa sér, hér hef ég fengið símtöl frá þó nokkuð mörgu fullorðnu fólki, fólki á níræðisaldri, langömmu á tíræðisaldri, einstaklingum sem í rauninni búa sjálfir við bág kjör, að það virtist engu skipta í þá daga hvort þú hafðir efni á því að greiða af ábyrgðinni sem þú skrifaðir upp á á þeim tíma, þú varst gjaldgengur. Af því að barnabarnið eða barnabarnabarnið eða viðkomandi einstaklingur hefur ekki staðið í skilum með lánið þá situr ábyrgðin enn þá á þessum fullorðna áhyggjufulla einstaklingi sem í rauninni er gjörsamlega miður sín. Það liggur á borðinu að því eldri sem við verðum, því alvarlegri augum einhvern veginn lítum við á allt saman. Ég veit ekki út af hverju sú þróun er, það vex með okkur ákveðinn kvíði og allar svona óvæntar uppákomur og erfiðleikar, okkur finnst erfiðara að fylgja þeim eftir því sem við verðum eldri, hvað þá þegar við erum tæplega níræð eða að verða 100 ára gömul.

Mér finnst í rauninni alveg rosalega mikilvægt að koma bara hreinlega með skýrar línur um það að það er ekkert ábyrgðarmannakerfi lengur á þessum lánum. Persónulega myndi ég segja hér sem formaður Flokks fólksins: Ég vil að allir sem vilja sækja sér menntun hér geti fengið stuðning og námslán til þess, allir, burt séð frá efnahag, burt séð frá öllu, og í rauninni á það ekki að vera lán, ég vil bara sjá styrki. Ég vil sjá metnað, ég vil sjá viðurkenningu á mannauðnum sem felst í unga fólkinu okkar sem er tilbúið að mennta sig og ganga inn í fjórðu iðnbyltinguna og bráðum þá fimmtu, eða við erum sennilega komin í fimmtu byltinguna, ég vil sjá að við séum að taka mark á því og virða það sem er framtíð landsins. Ég vil sjá alvöru, ekki bara allt í plati.

Að fá þessa skýrslu er ágætisinnlegg í umræðuna en betur má ef duga skal. Það verður að vera heildstætt. Það er ekki hægt að segja: Heyrðu já, námslánið er lágt. Þú hefur rétt á að taka námslán, við ætlum að hafa á því okurvexti, þú munt borga af því þangað til þú ert orðinn 150 ára eða hvað sem þú verður gamall, þú losnar aldrei úr þessari snöru nema þú verðir svo rosalega heppinn að fá fullt af peningum og geta bara borgað það upp. Þannig losnarðu við okkur. Þetta er galið en samt sem áður er það þannig að ef þú hefur hins vegar ekki efni á þessu og þú getur ekki lifað af þessu láni og þú verður að leigja þér íbúð, þá náttúrlega ertu í vondum málum, þú hefur ekkert bakland, þú ert líka enn þá í rosalega vondum málum, þú verður að vinna með náminu, sjáðu til, og þá ætlum við að skerða þig og svo líka færðu ekki styrkinn, þessi 30% sem við ætlum að fella niður af láninu í lok dags. Þegar þú ert búinn að útskrifast og ert svona rosalega frábær þá ætlum við bara alls ekkert að styrkja þig um það vegna þess að þú ert fátækur. Þú átt ekkert bakland og við stöndum ekki með þér. Þetta eru skilaboðin. Þetta er ástæðan fyrir brottfalli úr námi. Þetta er ástæðan fyrir vanlíðan unga fólksins okkar, að geta ekki og sjá bara gjörsamlega ekki úr augunum út þegar þau eru að reyna að leggja línurnar að sinni framtíð. Þau eru að gera það sum hver upp á eigin spýtur með ekkert bakland.

Við eigum fyrst og síðast að taka utan um þau sem hafa ekki bakland og tryggja að þau geti tekið þátt í þessu samfélagi á sínum forsendum og menntað sig eins og allir aðrir. Hin þurfa ekki á því að halda. Þau sem fæðast með silfurskeið og eru með sterkan bakgrunn, eru með sterkt bakland, pabbi og mamma leigja handa þeim íbúð eða jafnvel einbýlishús einhvers staðar, þurfa ekki á þessu að halda, þau eru á grænni grein.

Ég segi í fyrsta lagi: Burt með þessa vexti: Afnemum allar þessar skerðingar. Afnemum þetta allt saman. Gefum fólki val á að bjarga sér sjálft og gefum öllum tækifæri, sýnum það í verki að við virðum unga fólkið okkar, við virðum mannauðinn okkar og við höfum metnað fyrir því að sjá framtíðina bjarta hér fyrir alla, og í guðanna bænum, ég segi það enn og aftur, hættið að mismuna fólki eftir efnahag, hættið að múra fólk inni í fátæktargildrum, hættið að refsa því fyrir að eiga ekki bakland. Tökum utan um þá sem við þurfum að hjálpa, veitum þeim frelsi, veitum þeim val, veitum þeim menntun, veitum þeim framtíð, byggjum mannauðinn, virðum samfélagið okkar af öllu hjarta.